Enski boltinn

Pulis: Eiður enn of þungur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Stoke.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Stoke. Nordic Photos / Getty Images

Tony Pulis, stjóri Stoke, segir að Eiður Smári Guðjohnsen sé enn of þungur og að hann muni sennilega ekki fá sæti í byrjunarliði Stoke fyrr en í desember.

Það er götublaðið The Sun sem hefur þetta eftir Pulis í dag. „Hann er enn aðeins of þungur. Vonandi ætti hann að vera kominn almennilega í gang í desember," sagði Pulis. „Hraðinn í ensku úrvalsdeildinni gerir það að verkum að menn verða að vera 100 prósent.“

Pulis sér þó ekki eftir því að hafa keypt Eið Smára. „Það er gott að hafa hann og hann hefur sýnt hvaða leikmann hann hefur að geyma. En hann er ekki enn kominn á það stig sem við viljum hafa hann á.“

Eiður á glæsilegan feril að baki þar sem hann hefur leikið með Bolton, Chelsea og Barcelona. Hann var síðast á mála hjá Monaco í Frakklandi þar sem hann náði sér ekki á strik.

Hann var lánaður til Tottenham á síðari hluta tímabilsins í fyrra en félagið ákvað að fá hann ekki aftur til liðs við sig í sumar.

Eiður hefur ekki enn fengið tæki í byrjunarliði Stoke síðan hann kom til félagsins en skorað eitt mark í leik með varaliði félagsins. Stoke hefur tapað fjórum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og datt þar með úr sjöunda sæti í það fimmtánda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×