Enski boltinn

Skoraði Veigar Páll framhjá framtíðarmarkverði Man United?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson.
Eric Steele, markvarðarþjálfari Manchester United, var meðal áhorfenda á leik Aalesund og Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Enginn lék þar betur en íslenski landsliðsmaðurinn Veigar Páll Gunnarsson en Steele var þó ekki að fylgjast með honum heldur danska landsliðsmarkverðinum Anders Lindegaard.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði glæsilegt mark framhjá Lindegaard eftir laglegan einleik en þessi 26 ára Dani stóð sig annars vel í markinu í þessum leik og er af mörgum talinn vera einn allra besti markvörðurinn á Norðurlöndum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eric Steele fer til Noregs að skoða Anders Lindegaard en það er margt sem bendir til þess að Manchester United sjái í honum arftaka Hollendingsins Edwin van der Sar og þar með væntanlegan framtíðarmarkmann liðsins.

Það hefur gefist vel að fá danskan markmann í mark Manchester United eins og dæmið um Peter Schmeichel sýnir og það er víst ofarlega á forgangslista Sir Alex Ferguson, stjóra United, að ganga frá markmannsmálunum sem fyrst. Hinn 39 ára gamli Van der Sar er líklega á sínu síðasta ári og Fergusson hefur ekki mikla trú á Tomasz Kuszczak.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×