Erlent

Geðveikur eða ekki: Slátraði geðlækninum og blés fingurkossa

David Tarloff, saxaði geðlækninn og blés fingurkossa út í loftið.
David Tarloff, saxaði geðlækninn og blés fingurkossa út í loftið.

Dómari ómerkti réttarhald yfir David Tarloff í dag en hann er grunaður um að hafa myrt geðlækninn sinn í New York árið 2008. Málið hefur vakið talsverða athygli en hart er deilt um það hvort Tarloff sé í raun geðveikur.

Sálfræðingar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki of andlega vanheill til þess að sitja réttarhaldið vegna hrottalegs morðs sem hann játar reyndar að hafa framið.

Þá myrti hann geðlækninn Kathryn Faughey á skrifstofu sinni með kjötsaxi. Morðið var hrottalegt. Margt benti til þess að Tarloff væri haldinn ofsóknaræði og geðklofa.

Tarloff mætti hinsvegar vígreifur til réttarhaldanna í dag og gaf dómaranum fingurkoss auk þess sem hann greip út í tómt loftið líkt og hann væri að veiða flugur. Svo muldraði hann geðveikislega til þess að undirstrika ástand sitt.

Lögmaður Tarloffs sagði fyrir rétti að skjólstæðingur sinn væri sannfærður um að kviðdómur, sem hefur ekki enn verið skipaður, myndi finna hann saklausan.

Ástæðan væri þó ekki sú að hann væri raunverulega saklaus, heldur ætlaði guð að fara inn í huga kviðdómendanna og koma þar fyrir hinni réttu sýn á morðmálið.

Þess þarf vart að geta að það er Tarloff sjálfur sem segist sjá hlutina með þessum hætti.

Þá sagði verjandi Tarloffs að skjólstæðingur sinn hefði hlakkað til réttarhaldanna. Enda sannfærður um að það sé útilokað að kviðdómur finni hann sekann. Áður en hann var færður í réttarsalinn hljóp Tarloff nakinn um ganga fangelsisins.

Nú mun saksóknari fá sérfræðinga til þess að kanna andlegt hæfi Tarloffs. Komist hann að sömu niðurstöðu mun málinu verða frestað um óákveðinn tíma, eða þangað til Tarloff jafnar sig og hann verður fundinn nógu andlega heill til þess að sitja eigið réttarhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×