Innlent

Rappstríð í Reykjavík: Útvarpsmaður kom til bjargar

Frá vettvangi í Skaftahlíð í dag.
Frá vettvangi í Skaftahlíð í dag.

„Þetta er einn æsilegasti þátturinn sem ég hef verið í," segir Frosti Logason, annar umsjónarmanna þáttarins Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu en hann lenti í átökum við rapparann Magnús Ómarsson, eða Móra eins og hann er kallaður, þegar hann lagði til Erps Eyvindarsonar með hnífi.

Erpur og Móri hafa deilt í fjölmiðlum undanfarið og voru fengnir í útvarpsþáttinn Harmageddon til þess að útkljá málin. Tónlistarmennirnir komust ekki lengra en inn í anddyri húsnæðis útvarpsstöðvarinnar í Skaftahlíð. Móri reyndist vera vopnaður rafbyssu og hnífi auk þess sem hann var með hund með sér af dobermankyni.

Móri lagði til Erps með hnífnum en Frosti brást skjótt við og reyndi að stöðva rapparann. Engu að síður meiddist Erpur lítillega í árásinni en því má sennilega þakka íhlutun Frosta að ekki fór verr. Erpur náði einnig að verjast með skúringamoppu.

„Við skiljum ekki þennan rappheim nógu vel enda sjálfir rokkarar," segir Frosti en auk þess að vera útvarpsmaður þá er hann gítarleikari rokkhljómsveitarinnar Mínus.

Honum var nokkuð brugðið þegar blaðamaður hafði samband við hann en þá lá fyrir að gefa lögreglunni skýrslu af málinu. Allt tiltækt lögreglulið í Reykjavík leitar enn að Móra en árásin átti sér stað rétt fyrir klukkan fimm síðdegis.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Móri reyndi að stinga Erp

Magnús Ómarsson, betur þekktur sem Móri, reyndi að stinga rapparann Erp Eyvindarson í húsakynnum útvarpsstöðvarinnar X-ins 977 í Skaftahlíð í dag. Móri og Erpur hafa deilt harkalega að undanförnu. Erpur lýsti til að mynda yfir í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu á dögunum að hann hefði uppgvötað Móra á sínum tíma. Móri sagðist aftur í móti í viðtali við Fréttablaðið fyrir helgi vera búinn að rappa síðan Erpur var í bleyju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×