Íslenski boltinn

Tryggvi: Fengum stressaðan dómara

Elvar Geir Magnússon skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.

KR vann 1-0 sigur á ÍBV í Pepsi-deildinni í gær en eina mark leiksins kom á 89. mínútu. Eyjamenn áttu ekki skilið að fara tómhentir úr leiknum og Tryggvi Guðmundsson var eðlilega fúll eftir leik.

„Þetta er skelfilegt. Ég tek mikla sök á mig þar sem ég klúðraði líklega stærsta dauðafæri okkar í leiknum. Það er ansi dapurt að fá ekkert úr þessu," sagði Tryggvi sem misnotaði vítaspyrnu í leiknum. „Við sköpuðum miklu meiri hættu og vorum betri heilt yfir."

Tryggvi var alls ekki sáttur við frammistöðu Þorvaldar Árnasonar dómara. KR-ingar voru stálheppnir að ljúka fyrri hálfleiknum ellefu en Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefði réttilega átt að fá sitt annað gula spjald í fyrri hálfleik og þar með rautt.

„Ég ætla ekki að kenna manninum um en við fengum mjög stressaðan dómara í dag. Ég sé ekki stigsmuninn á þessum brotum hjá Grétari sem koma þarna með smá millibili. Honum var sleppt í seinna skiptið bara því hann var kominn með gult. Ég yppti öxlum yfir þessari ákvörðun og hann vildi meina að ég væri með látbragðsleik fyrir stúkuna og ég fékk sjálfur gult. Ég sagði ekki eitt einasta orð."

Hann vill þó ekki skella skuldinni alfarið á dómarann. „Við verðum að bíta í skjaldarrendur. Við getum sjálfum okkur um kennt, við fengum fullt af færum. Við erum að spila flottan fótbolta og verðum að halda áfram," sagði Tryggvi Guðmundsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×