Enski boltinn

Redknapp vill fá Eið Smára á láni - hættir hann við West Ham?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/AFP

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, lýsti í gærkvöldi yfir áhuga sínum á að stela Eiði Smára Guðjohnsen af West Ham þegar allt leit út fyrir að íslenski landsliðsmaðurinn væri á leiðinni á Upton Park.

Breskir fjölmiðlar fjalla um málið í morgun, The Independent segir að Redknapp sé að reyna allt til að ná í Eið Smára en bæði The Times og The Guardian eru meira á því að hann sé búinn að afskrifa íslenska landsliðsmanninn og búist við að hann fari í West Ham.

„Ég er hrifinn af Eiði og hann er góður fótboltamaður. Við þyrftum ekkert að stela honum af West Ham því lán er bara lán. Ég talaði við umboðsmanninn hans til þess að forvitnast um hvernig samningurinn væri og það lítur út fyrir að Mónakó sé að borga stóran hluta af laununum hans," sagði Harry Redknapp við The Independent.

„Umboðsmaðurinn hans sagði að Eiður væri á leiðinni til West Ham og ég gaf honum samband við stjórnarformanninn okkar. Launin koma mér ekkert við. Þetta væri góður lánssamningur, það er mikið framundan hjá okkur og hann gæti hjálpað okkur," sagði Redknapp.

„Eiður getur spilað í mismunandi stöðum og það er hægt að stilla upp í mismunandi leikkerfi í kringum hann. Það væri gott að hafa hann innanborðs og mér fannst þetta lánstilboð líta vel út. Mér fannst þetta mjög áhugavert um leið og ég heyrði af því," sagði Redknapp.

Eiður Smári fór í læknisskoðun á Upton Park í gær en Gianfranco Zola neitaði að tala um málið í gær sem The Independent telur að bendi til þess að Eiður sé á leiðinni til Tottenham en ekki til West Ham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×