Erlent

Kosið í skugga hryðjuverka

utankjörfundaratvkæði Íraskur hermaður leitar í tösku ríkisstarfsmanns sem greiddi utankjörfundaratkvæði í þingkosningunum. Fréttablaðið/ap
utankjörfundaratvkæði Íraskur hermaður leitar í tösku ríkisstarfsmanns sem greiddi utankjörfundaratkvæði í þingkosningunum. Fréttablaðið/ap

Að minnsta kosti þrjátíu fórust og 48 særðust í nokkrum sjálfsmorðssprengjuárásum í borginni Baquoba í Írak í gær. Einn vígamannanna var farþegi í sjúkrabíl sem var að flytja særða á sjúkrahús þegar hann sprengdi sig í loft upp.

Þetta eru mannskæðustu sprengjuárásir í Írak í margar vikur og koma í aðdraganda þingkosninganna þar í landi 7. mars. Þar ákveða Írakar hver heldur um stjórnartaumana í landinu þegar hernámslið Bandaríkjamanna heldur heim á leið. Bandarísk og írösk yfirvöld hafa ítrekað varað við að uppreisnarmenn myndu líklega reyna að setja strik í reikninginn fyrir kosningar.

Árásirnar gætu veikt framboð núverandi forsætisráðherra, Nouri al-Maliki. Hann komst til valda árið 2006 og tókst viðhalda tiltölulegum stöðugleika í landinu 2008 og 2009.

Í fyrstu árásinni sprakk bílasprengja fyrir utan opinbera byggingu í grennd við bækistöðvar íraska hersins. Önnur bílasprengja sprakk stuttu síðar í tvö hundruð metra fjarlægð. Þriðja sprengjan sprakk þegar sjálfsmorðsprengjuárásarmaður sprengdi sig í loft upp í sjúkrabíl fyrir utan spítala. Flestir féllu í þeirri sprengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×