Enski boltinn

Nýi enski landliðsmaðurinn Kevin Davies: Hélt að þetta væri grín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Davies.
Kevin Davies. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kevin Davies, liðsfélagi Grétars Rafns Steinssonar og framherji Bolton Wanderers, var valinn í enska landsliðið í fyrsta sinn á ferlinum í gær en kappinn er orðinn 33 ára gamall og var fyrir löngu búinn að afskrifa möguleikann á því að spila með enska landsliðinu.

„Ég var bara heima með konunni og börnunum og það tók mig nokkurn tíma að átta mig á þessu. Ég er mjög stoltur yfir því að vera valinn í enska landsliðið," sagði Kevin Davies í viðtali við BBC.

„Ég trúði þessu ekki fyrst ef ég segi eins og er. Ég hélt að þetta væri grín. Ég er engu að síður mjög spenntur fyrir þessu og þetta er tækifæri sem ég bjóst ekki við að fá á mínum ferli," sagði Kevin Davies.

„Ég er búinn að vera dreyma um þetta síðan að ég var lítill strákur. Í sumar var ég úti í búð að finna dót til að skreyta húsið fyrir HM og það verður magnað að fá að vera hluti af liðinu núna. Ég ætla að fara þangað til að sýna hvað ég get," sagði Kevin Davies.

Englendingar mæta Svartfellingum í undankeppni EM en enska liðið byrjaði vel og vann tvo fyrstu leiki sína á móti Búlgaríu og Sviss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×