Enski boltinn

Scunthorpe komst yfir en United svaraði með fimm mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen skorar fyrra mark sitt í kvöld.
Michael Owen skorar fyrra mark sitt í kvöld. Mynd/AFP
Manchester United vann 5-2 útisigur á b-deildarliðinu Scunthorpe United í 3. umferð enska deildarbikarsins í kvöld. United lenti undir í leiknum en vann á endanum mjög öruggan sigur. Michael Owen skoraði tvö marka United í kvöld.

Hinn tvítugi Josh Wright kom Scunthorpe United í 1-0 á 19. mínútu með stórkostlegu skoti fyrir utan teig en draumurinn hans lifði aðeins í fjórar mínútur því Darron Gibson jafnaði þá leikinn.

Gibson slapp þá í gegn eftir langa sendingu frá Chris Smalling og lyfti boltanum smekklega yfir markvörðinn og í markið.

Chris Smalling var síðan sjálfur réttur maður á réttum stað á 25. mínútu þegar Scunthorpe mistókst að hreinsa almennilega frá aukaspyrnu og Smalling skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Ji-Sung Park.

Michael Owen skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu og kom United í 3-1 í upphafi seinni hálfleiks eftir að hafa fengið stungusendingu frá Federico Macheda.

Ji-Sung Park skoraði síðan fjórða mark á 54. mínútu með skoti af vítateig eftir hornspyrnu og skalla Michael Owen út í teiginn.

Michael Owen bætti við öðru marki sínu á 71. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Ji-Sung Park.

Scunthorpe United átti síðan lokaorðið í leiknum þegar þeir náðu að minnka muninn í 5-2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×