Enski boltinn

Enrique vill að De Jong verði dæmdur í langt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel de Jong tæklar Xabi Alonso í úrslitaleik HM í sumar.
Nigel de Jong tæklar Xabi Alonso í úrslitaleik HM í sumar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Enrique, bakvörður enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle, vill að Hollendingurinn Nigel de Jong verði dæmdur í langt keppnisbann fyrir að fótbrjóta Hatem Ben Arfa í leik liðanna um síðustu helgi.

Tæklingin kom strax á 3. mínútu leiksins, Nigel de Jong fékk ekkert spjald en Ben Arfa fótbrotnaði á tveimur stöðum og verður frá keppni fram í mars að minnsta kosti.

„Þetta var fáránleg tækling hjá De Jong. Hann er einn af þessum leikmönnum sem mæta í hverja tæklingu til þess að drepa andstæðinginn. Ég von að þeir setji hann í fimm til sex mánaða bann eða jafnlangan tíma og Ben Arfa frá keppni," sagði Jose Enrique við spænska blaðið Marca.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann stórslasar leikmann. Hann gerði svipað við Bandaríkjamanninn Stuart Holden í landsleik á síðasta tímabili og það vita allir um tæklingu hans í brjótkassann á Xabi Alonso á úrslitaleik HM," sagði Jose Enrique reiður.

„Þetta var miskunnalaus tækling á fjórðu mínútu leiksins, dómarinn dæmdi ekki einu sinni brot og De Jong hélt áfram að sparka niður okkar leikmenn allan leikinn," sagði Enrique.

De Jong var hent út úr hollenska landsliðinu fyrir brotið og Newcastle hefur lagt inn beiðni hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins um að hún taki málið fyrir og dæmi í Nigel de Jong í leikbann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×