Innlent

Enn meiri samdráttur í spilunum

Þórarinn G. Pétursson
Þórarinn G. Pétursson

Dragist samningar um Icesave enn á langinn má gera ráð fyrir að atvinnuleysi, auk samdráttar landsframleiðslu og fjárfestingar, verði mun meira en Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir í spám sínum.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, benti á það þegar kynnt var ákvörðun peningastefnunefndar bankans um vexti á miðvikudag, að í síðustu hagspá bankans, Peningamálum, sem út komu í janúar, væri að finna vísbendingu um hvers væri að vænta í umfangi samdráttarins, dragist enn að Icesave leysist.

„Sem dæmi má nefna að tefjist stórframkvæmdir fram á seinni hluta næsta árs og verði önnur fjárfesting á þessu ári um 10 prósentum minni en gert er ráð fyrir, gæti fjármunamyndun dregist saman um fjórðung á þessu ári og landsframleiðsla um 5 prósent. Atvinnuleysi yrði jafnframt hátt í tveimur prósentum meira í lok ársins en gert er ráð fyrir í grunnspánni,“ segir í Peningamálum, en grunnspá bankans gerði ráð fyrir tiltölulega skjótri úrlausn Icesave-mála.

Í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka í gær segir að vonir landsmanna um að lausn sé á næsta leiti virðist fara þverrandi. „Enda hefur lausn deilunnar nú verið í sjónmáli í marga mánuði án þess að endahnútur sé bundinn á málið.“ Bent er á að samningaviðræður um Icesave hafi ekki enn hafist að nýju eftir að upp úr slitnaði í byrjun þessa mánaðar. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×