Erlent

Sendi Jackie vikulega bréf eftir morðið á JFK

JFK var myrtur í Dallas í nóvember 1963. MYND/AFP
JFK var myrtur í Dallas í nóvember 1963. MYND/AFP

Mánuðina eftir morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta fyrir 47 árum barst ekkjunni Jacqueline 1,5 milljón bréfa sem innihéldu samúðarkveðjur almennings í Bandaríkjunum. Þar á meðal voru á þriðja tug bréfa frá 11 ára stúlku í Texas sem skrifaði forsetafrúnni fyrrverandi vikulega bréf í hálft ár eftir morðið.

Fyrstu sex vikurnar eftir morðið á forsetanum í Dallas í Texas í nóvember árið 1963 bárust um 800 þúsund bréf. Hluti þeirra eru varðveitt á bókasafni í Boston kennt við forsetann og hafa ekki áður komið fyrir sjónir almennings. Í síðustu viku kom út bókin „Bréfin til Jackie: Samúðarkveðjur frá syrgjandi þjóð" sem inniheldur rúmlega 200 bréfanna.

Í bókinni er meðal annars bréf frá Jane Dryden sem þá var 11 ára og bjó í Austin í Texas. „Ég veit að þú hatar alla í Texas. Ég geri það líka," segir hún í dramatísku bréfi til Jacqueline í ársbyrjun 1964. „Ég vildi óska að ég byggi í Washington þar sem ég gæti séð þig standa úti á veröndinni þinni. Ég er ákveðin að flytja þangað um leið og ég get. Þar yrði ég miklu öruggari," skrifaði hin 11 ára Jane.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×