Enski boltinn

Hodgson nýtur stuðnings nýju eigendanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Henry, nýr eigandi Liverpool, ræðir hér við Roy Hodgson.
John Henry, nýr eigandi Liverpool, ræðir hér við Roy Hodgson. Nordic Photos / Getty Images

John Henry og eignarhaldsfélag hans, NESV, hafa lýst yfir stuðningi við Roy Hodgson, stjóra Liverpool.

NESV gekk í fyrradag frá kaupum á Liverpool og liðið mætir Everton í dag. Félaginu hefur gengið skelfilega í upphafi tímabilsins í haust en Hodgson tók við liðinu í sumar. Liverpool hefur ekki byrjað verr í 57 ár.

„Við höfum trú á Roy,“ sagði Tom Werner, einn meðeigenda NESV, í samtali við breska ríkisútvarpið í dag.

„Það er enginn ánægður með gengi Liverpool í upphafi tímabilsins en Roy þarf að fá tíma. Við sjáum enga ástæðu fyrir því að Roy ætti ekki að vera þjálfari Liverpool í ár og á næstu árum.“

John Henry og félagar hans í NESV eru í stúkunni á Goodison Park en leikur Liverpool og Everton hefst núna klukkan 12.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×