Enski boltinn

Mourinho: Hefði átt að fara til Real árið 2007

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real.
Jose Mourinho, stjóri Real. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho segir að honum hafi staðið til boða að ráða sig til Real Madrid árið 2007 og að það hafi líklega verið mistök að hafna því þá.

„Þegar ég lyfti sex fingrum á loft eftir að Chelsea varð bikarmeistari vorið 2007 var það til marks um titlana sex sem ég vann á mínum þremur árum þar," sagði Mourinho.

„Það hefði getað verið mitt síðasta kvöld hjá Chelsea. Mér stóð til boða að fara til Real en ég sagði nei. Ég hefði líklega átt að segja já. En ég ákvað að vera áfram og fjórum mánuðum síðar var ég atvinnulaus."

Hann tók síðar tók við Inter á Ítalíu og gerði liðið að þreföldum meisturum á síðustu leiktíð. Hann er nú kominn til Spánar þar sem hann er stjóri Real en honum dreymir um að fara aftur til Englands.

„Ég sakna ykkar líklega meira en mín er saknað hér," sagði hann á ráðstefnu í Lundúnum um helgina.

„Einn daginn mun ég hætta á Bernabeu og þá vil ég búa aftur í Englandi."

„Ég las afar góð ummæli fyrr á þessari leiktíð. Þau voru ekki frá mér, heldur Sir Alex Ferguson - fremsta knattspyrnustjóranum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann sagðist ekki vilja hætta störfum."

„Það er nákvæmlega það sem ég vil segja þegar ég verð sextugur. Ég vil lifa mínu knattspyrnulífi eins lengi og ég get."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×