Enski boltinn

Enski boltinn: Manchester City skoraði þrjú mörk án Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna marki Yaya Touré
Leikmenn Manchester City fagna marki Yaya Touré Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City komst upp að hlið Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 sigur á botnliði West Ham á Upton Park í dag en Arsenal-menn halda toppsætinu á markatölu. Aston Villa vann sinn fyrsta sigur í fimm leikjum og Stoke tapaði heimavelli á móti Blackpool.

Carlos Tevez hefur haldið sóknarleik Manchester City á floti á tímabilinu en City vann þó 3-0 sigur á West Ham án hans í dag. Tevez tók út leikbann í dag. Manchester City er með 32 stig eins og Arsenal en talsvert lakari markatölu.

Yaya Touré kom Manchester City í 1-0 eftir hálftímaleik með glæsilegu skoti af vítateig eftir þversendingu frá Gareth Barry. Touré hóf sóknina og lauk henni með flottu vinstri fótar skoti.

Yaya Touré átti líka mikinn þátt í öðru markinu sem skráist sem sjálfsmark á Robert Green markvörð West Ham. Touré átti þá skot sem fór í stöngina og út en síðan í bakið á Green og í markið.

Varamaðurinn Adam Johnson skoraði síðan þriðja markið eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá David Silva. Johnson hafði komið inn á fyrir vandræðagemlinginn Mario Balotelli sem var í slæmu skapi í dag.

James Tomkins náði síðan að minnka muninn fyrir West Ham í lokin en West Ham liðið hafði eins og oft áður í vetur ekki heppnina með sér í þessum leik.

Stewart Downing fagnar marki sínu með Ashley Young.Mynd/Nordic Photos/Getty
Aston Villa hafði tapað þremur leikjum í röð og ekki unnið í síðustu fjórum leikjum þegar Villa-liðið vann 2-1 heimasigur á grönnum sínum í West Brom í dag.



Stewart Downing kom Aston Villa í 1-0 í fyrri hálfleiknum og Emile Heskey skoraði seinna markið tíu mínútum fyrir leikslok. Paul Scharner minnkaði muninn á lokamínútunni.

DJ Campbell tryggði Blackpool 1-0 útisigur á Stoke með marki í upphafi seinni hálfleiks. Eiður Smári Guðjohnsen sat allan tímann á varamannabekknum eins og hann hefur gert í síðustu sjö leikjum.

Það var annars ekki mikið skorað í ensku úrvalsdeildinni í þessum fimm leikjum sem hófust klukkan þrjú og voru sem dæmi aðeins komin tvö mörk í hálfleik. Tveir leikir enduðu að lokum með markalausu jafntefli.

Úrslit og markaskorarar í ensku úrvalsdeildinni í dag:
DJ Campbell fagnar sigurmarki sínu.Mynd/AP

Aston Villa-West Brom 2-1

1-0 Stewart Downing (25.), 2-0 Emile Heskey (80.), 2-1 Paul Scharner (90.)

Everton-Wigan 0-0

Fulham-Sunderland 0-0

Stoke-Blackpool 0-1

0-1 DJ Campbell (47.)

West Ham-Man City 1-3

0-1 Yaya Touré (30.), 0-2 Sjálfsmark Robert Green (73.), 0-3 Adam Johnson. (81.), 1-3 James Tomkins (89.)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×