Enski boltinn

Mancini: Þetta er City á móti Fulham en ekki Mancini á móti Hughes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini þakkar stuðningsmönnum Manchester City fyrir eftir síðasta leik.
Roberto Mancini þakkar stuðningsmönnum Manchester City fyrir eftir síðasta leik. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, gerir lítið úr einvígi hans á móti Mark Hughes í ensku úrvalsdeildinni en lið þeirra Manchester City og Fulham mætast þá á Craven Cottage. Hughes var rekinn frá City fyrir tæpu ári til þess að búa til pláss fyrir Mancini.

Leikur Fulham og Manchester City er stórleikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni og hefst klukkan 16.00.

„Ég veit ekki hvort Mark Hughes telji sig þurfa að sanna eitthvað í þessum leik en þetta er bara Manchester City á móti Fulham en ekki Mancini á móti Hughes," sagði Mancini.

„Kannski skiptir þessi leikur meira máli fyrir hann en ég er viss um að hann reynir að vinna alla leiki," sagði Mancini.

„Við erum í fjórða sæti núna og ég býst við því að við komust inn í Meistaradeildina og vinnum eitthvað. Það er mín trú því mér finnst að liðið hafi bætt sig mikið," sagði Mancini fyrir helgina en Bolton komst upp fyrir City á markatölu með stórsigrinum á Newcastle í gær.

Manchester City hefur gert tvö markalaus jafntefli í röð og aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum.

„Miðað við öll vandamálin okkar, alla leikmennina sem við viljum selja og alla leikmennina sem við viljum kaupa þá erum við bara sex stigum á eftir Chelsea. Það er að mínu mati góð staða fyri okkur," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×