Enski boltinn

Eiður nú orðaður við Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Stoke í september síðastliðnum.
Eiður Smári í leik með Stoke í september síðastliðnum. Nordic Photos / Getty Images

Breskir fjölmiðlar eru enn að orða Eið Smára Guðjohnsen við önnur félög á Englandi eftir að honum hefur gengið illa að festa sig í sessi hjá Stoke City.

Fjölmiðlar í Wales greina nú frá því að Brendan Rodgers, stjóri Swansea, hafi reynt að fá Eið að láni frá Stoke. Félagið leikur í ensku B-deildinni, rétt eins og Reading sem reyndi að fá Eið Smára í síðustu viku.

Það er einnig fullyrt að Eiður hafi verið reiðubúinn að fara til Swansea en að Tony Pulis, stjóri Stoke, hafi komið í veg fyrir það.

Ástæðan er sögð vera sú að of fáir leikfærir leikmenn væru nú í leikmannahópi Stoke.

Engu að síður virðist Pulis engin not hafa fyrir Eið en hann kom síðast við sögu í leik með Stoke í ensku deildarbikarkeppninni fyrir tæpum mánuði síðan, er hann kom inn á sem varamaður í leik gegn West Ham.

Hann hefur semsagt ekki leikið eina einustu mínútu með aðalliðinu í nóvember.

Rodgers þekkir Eið Smára vel en hann starfaði sem þjálfari hjá Chelsea á sama tíma og Eiður lék með félaginu, áður en hann gekk í raðir Barcelona árið 2006.

Rodgers mun einnig hafa reynt að fá Carlos Vela frá Arsenal og Daniel Sturridge frá Chelsea en ekki tekist. Hann er nú með Matty Fryatt, leikmann Leicester, í sigtinu en lokadagur félagaskipta vegna lánssamninga í Englandi er á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×