Enski boltinn

Giggs: Er farinn að sjá svolítinn Cristiano Ronaldo í Nani

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs og Nani.
Ryan Giggs og Nani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ryan Giggs hefur trú á því að Nani sé farinn að nálgast Cristiano Ronaldo og sér enga fyrirstöðu fyrir því að hann geti orðið einn af bestu leikmönnum í heimi. Nani hefur spilað vel með Manchester United á tímabilinu og skoraði tvö mörk í sigri Portúgala á Dönum á föstudagskvöldið. Næsti leikur hans er síðan á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið.

„Ég tel að Nani sé tilbúinn að fara upp á næsta getustig. Hann hefur alltaf verið leikmaður sem hefur getað unnið leiki en þarf að fara að ná meiri stöðugleika í sínum leik," sagði Ryan Giggs í viðtali við The People.

„Hann er þegar búinn að búa til sjö eða átta mörk og skorað nokkur sjálfur en hann getur gert enn betur," sagði Giggs.

„Nani er farinn að skila hlutum til liðsins sem okkur hefur vantað síðan Cristiano Ronaldo fór frá okkur. Hann er farinn að fylla betur í skarðið sem Ronaldo skildi eftir sig. Þessi mörk af löngu færi og einleiksmörk eins og Nani skoraði á móti Bolton sýna hvað hann getur gert," segir Giggs.

„Nani þarf bara að fara skora fleiri mörk. Hann þarf að skora 20 mörk og búa til 20 önnur mörk á hverju tímabili. Hann getur það alveg og það er ekki heldur hægt að ætlast til meira af vængmanni," sagði Giggs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×