Fótbolti

Hermann í tárum - Ferillinn í hættu?

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Hermann féll niður án þess að nokkur væri nálægt honum í leiknum og meiddist illa.
Hermann féll niður án þess að nokkur væri nálægt honum í leiknum og meiddist illa. Nordicphotos/Getty Images
Óvíst er hver næstu skref Hermanns Hreiðarssonar verða. Landsliðsfyrirliðinn meiddist illa um helgina og var borinn af velli með súrefnisgrímu í tapinu gegn Tottenham. Harðjaxlinn kallar ekki allt ömmu sína, sem væri enda óeðlilegt, en Harry Redknapp góðvinur Hermanns segist hafa séð hann gráta eftir leikinn.

Það geta ekki verið annað en eðlileg viðbrögð, bæði sökum gnístandi sársauka við að slíta hásin, ein verstu meiðsli sem íþróttamaður getur lent í, og sökum framtíðarinnar. Hinn 36 ára gamall Hermann er á sölulista eins og aðrir leikmenn Portsmouth og verður samningslaus í sumar.

Eins og tímabilið hafi ekki verið nógu erfitt fyrir Hermann gerist þetta á versta tíma. Félagið er reyndar svo gott sem fallið úr deildinni en það á undanúrslitaleik í FA-bikarnum eftir, einmitt gegn Tottenham.

„Ég fór og talaði við Hermann og ég var sorgmæddur að sjá hann svona. Hann var í tárum," sagði Redknapp um Eyjamanninn síkáta. Hann bætti við að leikmenn hefðu heyrt þegar hásinin slitnaði. „Þetta var eins og að heyra byssu skotið af."

Hermann mun því falla með sínu fimmta félagi, að öllum líkindum, án þess að geta gert nokkuð í því. Ekki það sem þessi mikli keppnismaður vildi.

„Hann er frábær maður, ótrúlegur karakter," sagði Redknapp sem stýrði Portsmouth til sigurs í FA bikarnum árið 2008 með Hermann fremstan í flokki. „Fyrir úrslitaleikinn fórum við saman á föstudeginum. Við fórum á ítalskan veitingastað og Hermann fór í karaoke en hann á stórkostlegan Elvis-búning, þennan hvíta með stóru öxlunum."

„Röddin hans er alveg djöfulleg en tilþrif hans eru frábær. Við eigum heima nálægt hvor öðrum og ég er kannski úti að borða með konunni þegar ég sé hann með sínum íslensku vinum þar sem þau eru að syngja ABBA lög."

„Eftir sigurinn í FA bikarnum vorum við að fagna á rútunni þegar hann byrjaði að ýta Gaydamak út af henni. Ég þurfti segja við hann: „Hann er eigandinn!"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×