Enski boltinn

Lampard verður ekki með á móti Tottenham á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Frank Lampard þarf að bíða enn lengur eftir að snúa til baka í lið Chelsea eftir að ljóst varð að hann er ekki klár í að spila með liðinu á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Lampard hefur verið frá í þrjá mánuði eða síðan að hann fór í kviðsslitsaðgerð og meiddist síðan á nára í framhaldinu. Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, sagði eftir Meistaradeildarleikinn á móti Marseille í vikunni að Lampard væri byrjaður að æfa með liðinu og það mátti heyra á Ítalanum að hann gerði sér vonir um að geta notað Lampard á móti Spurs.

Frank Lampard fyrir aftan bekk Chelsea á dögunum.Mynd/Nordic Photos/Getty

Í gær kom hinsvegar í ljós að Lampard er ekki tilbúinn og verður því ekki með á White Hart Lane.

„Hann er ekki kominn í form og verður ekki með. Ég get ekki sagt þetta með bros á vör því hann æfði vel alla þessa viku en þetta verður erfiður leikur á móti Spurs og við ætlum að passa upp á hann," sagði Carlo Ancelotti.

„Það eru engin vandamál á æfingunum en þetta verður mjög harður leikur. Hann mun spila æfingaleik og reynir síðan að verða klár fyrir Man Utd-leikinn," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×