Íslenski boltinn

Grindavík skiptir um þjálfara á miðju tímabili í fjórða sinn á sex árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Hjaltalín er oft búinn að fá nýjan þjálfara á síðustu árum.
Orri Freyr Hjaltalín er oft búinn að fá nýjan þjálfara á síðustu árum. Mynd/Vilhelm

Grindvíkingar hafa nú annað árið í röð skipt um þjálfara eftir aðeins nokkra leiki á Íslandsmótinu. Í fyrra hætti Milan Stefán Jankovic með liðið eftir aðeins þrjá leiki og í dag var Lúkas Kostic rekinn eftir fjórða tap liðsins í fjórum fyrstu leikjum Pepsi-deildar karla.

Grindavík var einnig stigalaust þegar Lúkas Kostic tók við liðinu í fyrra af Milan Stefán Jankovic sem hætti með liðið eftir 2-3 tap á móti Fjölni í Grafarvogi. Lúkasi tókst að fá fjögur stig út tveimur fyrstu leikjum sínum með liðið og Grindavík endaði að lokum í 9. sæti deildarinnar.

Nú situr Grindavík stigalaust á botninum eftir fjóra leiki og liðið hefur aðeins skorað eitt mark á fyrstu 360 mínútum sínum í Pepsi-deildinni í sumar.

Þetta er ennfremur í fjórða sinn á undanförnum sex árum sem Grindvíkingar skipta um þjálfara á miðju tímabili.

Zeljko Sankovic hætti með liðið 15. júlí 2004 þegar það var í fallsæti eftir 11 leiki (af 18). Aðstoðarþjálfarinn Guðmundur Valur Sigurðsson tók við liðinu og bjargaði því frá falli.

Sigurður Jónsson sagði af sér sem þjálfari Grindavíkur 13. september 2006 þegar aðeins tvær umferðir voru eftir. Magni Fannberg og Milan Stefán Jankovic tóku þá við liðinu en tókst ekki að koma í veg fyrir að liðið féll í fyrsta sinn úr efstu deild.

Fyrstu þrír leikir Grindavíkur í fyrra

Stjarnan-Grindavík 3-1

Grindavík-KR 0-4

Fjölnir-Grindavík 3-1

Samanlagt: 3 leikir, 0 stig, 3 mörk skoruð, 10 mörk á sig, botnsæti

Framhald: Grindavík fékk 4 stig út úr næstu tveimur leikjum og endaði mótið í 9. sæti

Fyrstu fjórir leikir Grindavíkur í ár

Stjarnan-Grindavík 4-0

Grindavík-Keflavík 0-1

Fram-Grindavík 2-0

Grindavík-Valur 1-2

Samanlagt: 4 leikir, 0 stig, 1 mark skorað, 9 mörk á sig, botnsæti

Framhald: Næsti leikur á móti FH á mánudaginn






Fleiri fréttir

Sjá meira


×