Enski boltinn

Vidic: Berbatov er breyttur leikmaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov fagnar um helgina.
Dimitar Berbatov fagnar um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Nemanja Vidic telur að Dimitar Berbatov hafi breytt leikstíl sínum með góðum árangri. Hann skoraði þrennu í 3-2 sigri United á Liverpool um helgina.

Hann hefur nú skorað alls sex mörk í fimm úrvalsdeildarleikjum United á tímabilinu en mörgum þykir hann ekki hafa staðið undir væntingum síðan hann gekk til liðs við United frá Tottenham fyrir tveimur árum.

„Við vitum allir hversu góður Dimitar er," sagði Vidic við enska fjölmiðla. „Boltatækni hans er ótrúleg. Sú gagnrýni sem hann fékk á sig í fyrra er vegna þess að hann skoraði ekki mörg mörk. En í ár hefur hann verið að skora mikið og mikilvæg mörk þar að auki."

„Hann hefur lært hvað hann þarf að gera. Hann hefur breytt leikstíl sínum frá síðustu leiktíð. Hann er meira í vítateignum og það stafar meiri ógn af honum."

„Ef hann heldur áfram á þessari braut eigum við góðan möguleika á því að vinna deildina. Hann ætti þá einnig möguleika á að verða valinn leikmaður ársins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×