Enski boltinn

Arsenal þarf að nýta tækifærið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samir Nasri hjá Arsenal og Gareth Bale hjá Tottenham.
Samir Nasri hjá Arsenal og Gareth Bale hjá Tottenham. Nordic Photos / AFP

Chelsea og Manchester United hafa nánast einokað titilbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni síðustu ár en báðum liðum hefur gengið nokkuð erfiðlega að finna sama stöðugleika og hefur einkennt liðin á undanförnum leiktíðum.

Arsenal hefur ekki unnið titil í fimm ár og á í dag möguleika á að því að komast í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á grönnum sínum og erkifjendum í Tottenham.

Lundúnaslagurinn er hádegisleikur dagsins á Englandi og með sigri kemst Arsenal einu stigi upp fyrir Chelsea sem á leik síðar í dag. Chelsea hefur haldið toppsætinu þrátt fyrir að hafa tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum en gæti misst það í dag, þó ekki nema um stundarsakir.

„Er komið að okkur að vinna titilinn? Það er um að gera að vera jákvæður gagnvart framtíðinni og það getur vel verið að það sé komið að okkur," sagði Frakkinn Samir Nasri, leikmaður Arsenal, sem átti stórleik í vináttulandsleiknum gegn Englandi í vikunni.

„Þetta verður sannarlega ekki auðveldur leikur en mér finnst að orðspor okkar hafi ekki verið jafn gott í langan tíma og við höfum allt sem þarf til að standa okkur vel."

Leikurinn fer fram á Emirates-leikvanginum í dag en heimavöllur Arsenal hefur ekki reynst sama vígi í ár eins og oft áður. Liðið tapaði þar fyrr í haust fyrir West Brom og fyrir Newcastle fyrir tveimur vikum.

Tottenham hefur ekki náð að fylgja eftir góðu gengi í Meistaradeildinni og er nú þremur stigum frá Meistaradeildarsæti í sjöunda sæti deildarinnar. Liðið þarf því helst að sigra í dag til að missa ekki toppliðin of langt frá sér.

Gareth Bale er skærasta stjarna liðsins um þessar mundir og ekki að ástæðulausu. Hann hefur sýnt snilldartakta á leiktíðinni og ætlar ekkert að gefa eftir gegn Arsenal. „Eins og er þurfum við að vinna hvern einasta leik sem við förum í," sagði Bale við enska fjölmiðla. „Og við höfum sýnt að við getum unnið hvaða lið sem er. Það verður auðvitað mjög erfitt að spila við Arsenal á Emirates-leikvanginum en við verðum tilbúnir í slaginn þegar leikurinn hefst."

Rooney á bekknum

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur staðfest að Wayne Rooney geti mögulega komið við sögu í leiknum gegn Wigan í dag. Rooney hefur verið frá síðan hann kom inn á sem varamaður gegn West Brom í síðasta mánuði.

Ef hann spilar í dag verður það fyrsti leikur hans síðan fréttir af samningamálum hans náðu ótrúlegum hæðum í fjölmiðlum í síðasta mánuði.

„Ég held að hann verði ekki í byrjunarliðinu á morgun," sagði Ferguson í gær. „En hann kemst kannski á bekkinn. Hann spilar þó vafalaust í leiknum gegn Rangers [í Meistaradeildinni] á miðvikudaginn."

United er í þriðja sæti deildarinnar og hefur gert tvö jafntefli í deildinni í röð. Liðið er reyndar enn taplaust í deildinni en á fleiri jafntefli (7) en sigra (6) til þessa.

Erfitt hjá Chelsea

Englandsmeistararnir fengu 3-0 skell gegn Sunderland á heimavelli um síðustu helgi og vilja sjálfsagt ólmir komast aftur á sigurbraut. Þeir eiga þó erfiðan leik fyrir höndum gegn Birmingham á útivelli í dag og ekki síst fyrir þær sakir að margir leikmenn liðsins eiga við meiðsli að stríða.

Fyrst og fremst er liðið án tveggja þungavigtarmanna sem hafa verið lykilmenn í liðinu meira eða minna í áratug, þeirra John Terry og Frank Lampard. Báðir eru meiddir, rétt eins og Yury Zhirkov og Yossi Benayoun. Auk þess mun Michael Essien taka út leikbann.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Brasilíumaðurinn Alex verður í liðinu í dag og mun líklega spila við hlið Branislavs Ivanovic í vörninni. Alex þarf að fara í aðgerð vegna hnémeiðsla en gat æft með brasilíska landsliðinu í vikunni.

„Við vitum að hann þarf að fara í aðgerð en það er hægt að fresta því eitthvað. Það er engin áhætta fólgin í því að láta hann spila en hann þarf samt að ná sér af hné­meiðslunum," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.

Enginn Gerrard

Liverpool spilar sinn fyrsta leik í dag eftir að fréttir bárust af því að fyrirliðinn Steven Gerrard yrði frá í 3-4 vikur vegna meiðslanna sem hann hlaut í landsleik Englands og Frakklands í vikunni. Forráðamenn félagsins eru æfir út í Fabio Capello landsliðsþjálfara fyrir að láta hann spila nánast allan leikinn. Capello lætur það þó ekki á sig fá og hefur harðneitað að biðjast afsökunar á þessu.

Það eru þó góðar fréttir fyrir Liverpool að Fernando Torres getur spilað í leiknum gegn West Ham í dag, sem og Dirk Kuyt, Martin Skrtel og Glen Johnson.

West Ham er á botni ensku úrvalsdeildarinnar og verður þar að auki án síns besta leikmanns, Scotts Parker, sem er meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×