Enski boltinn

Liverpool hafnaði boði Birmingham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Babel í leik með Liverpool.
Ryan Babel í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool mun hafa hafnað tilboði Birmingham í Hollendinginn Ryan Babel, eftir því sem enska dagblaðið Daily Mirror heldur fram.

Tilboð Birmingham var sagt vera upp á níu milljónir punda en Rafa Benitez, stjóri Liverpool, er talinn ekki sætta sig við minna en tólf milljónir fyrir Babel en félagið greiddi Ajax þá upphæð fyrir kappann á sínum tíma.

Babel sjálfur er einnig sagður hikandi og að hann vilji fara til félags sem á góðar líkur á því að spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Umboðsmaður Babel staðfesti þó í samtali við hollenska fjölmiðla að Birmingham hafi lagt fram tilboð í Babel.

„Við vitum að Liverpool er að íhuga alvarlega þetta tilboð," er haft eftir umboðsmanninum, Winnie Haatrecht. „Ryan vill fyrst og fremst ganga vel hjá Liverpool. En ef forráðamenn Liverpool ákveða að það væri betra að selja hann munum við hugsa um næsta skref á hans ferli."

Hann segir að fjöldi félaga hafi sett sig í samband við hann vegna Babel. „Ég vísaði þeim öllum til Liverpool og fimm eða sex félög höfðu samband. En engu þeirra tókst að ná samkomulagi við Liverpool."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×