Íslenski boltinn

Willum: Margur reynslumeiri leikmaður hefði fallið í völlinn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Stefán
„Það er ekki lögmál hjá okkur að vinna alltaf með einu marki því það var tilefni til að vinna þennan leik fleiri mörkum," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, eftir 2-1 sigur sinna manna gegn Selfossi í Reykjanesbæ í kvöld.

Selfoss komst yfir í leiknum eftir klaufaleg mistök hjá Árna Frey Ásgeirssyni í marki Keflavíkur sem var að leika sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir liðið í Pepsi-deildinni. Willum segir að liðið hafi staðið við bakið á markverðinum unga.

„Það hefði margur reynslumeiri leikmaður hefði fallið í völlinn við þessi mistök. Allt liðið studdi hann og það fannst mér frábært," segir Willum sem hrósar einnig Selfossliðinu.

„Það verður að hrósa Selfossliðinu því þeir héldu sér inn í leiknum allan leikinn. Þetta er það sem einkennir Selfyssinga og því er ég kátur með að ná öllum stigunum úr þessum leik."

Keflvíkingar hafa farið frábærlega af stað og eru taplausir með 13 stig eftir fimm leiki. Willum telur að liðið sé líklegt til að blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta hefur farið vel af stað og meðan við berjumst í hverjum leik þá verður erfitt að mæta okkur. Við erum að ná meira jafnvægi í okkar spili og erum líklegri til að berjast áfram á toppnum."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×