Enski boltinn

Kínverska ríkið gæti eignast meirihluta í Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Huang.
Kenny Huang. Mynd/AP
Enska dagblaðið The Times greinir frá því að kínverska ríkið sé helsti bakhjarl viðskiptamannsins Kenny Huang sem er í viðræðum um að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Huang hefur sjálfur lítið viljað tjá sig um þessar fregnir en samkvæmt frétt the Times myndi kínverska ríkið eignast meirihlutann í félaginu ef Huang tekst að kaupa félagið.

Þó nokkrir aðilar eru sagðir í viðræðum við forráðamenn Liverpool um kaup á félaginu en Martin Broughton, stjórnarformaður þess, hefur sagt að takmarkið sé að ganga frá sölunni fyrir mánaðamót.

Liverpool skuldar Royal Bank of Scotland-bankanum 237 milljónir punda en Huang er sagður meta félagið á um 300-350 milljónir.

Núverandi eigendur, Tom Hicks og George Gillett, ákváðu að setja félagið á sölu vegna slæmrar skuldastöðu þess í apríl síðastliðnum.

Ljóst er að ef af því verður að kínverska kommúnistastjórnin verði meirihlutaeigandi í Liverpool mun gælunafn liðsins, The Reds, öðlast nýja merkingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×