Enski boltinn

Solskjær hafnaði því að gerast þjálfari Molde

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Mynd/AFP
Ole Gunnar Solskjær hefur sagt frá því að hann hafnaði tilboði frá sínu gamla félagi í Noregi, Molde, um að gerast næsti aðalþjálfari liðsins. Solskjær ætlar í staðinn að halda áfram að vinna fyrir Manchester United.

Ole Gunnar Solskjær kom til Manchester United frá Molde árið 1996 og hefur unnið fyrir enska úrvalsdeildarliðið eftir að hann lagði skónna á hilluna.

Solskjær er orðinn 37 ára gamall og þjálfar nú varalið Manchester United. Hann hefur metnað fyrir því að reyna að vera stjóri United í framtíðinni og vildi ekki gefa þann möguleika upp á bátinn.

„Auðvitað var þetta freistandi tilboð því þetta kom frá mínum heimaslóðum. Málið er bara það að ég vil verða stjóri í Englandi og mig dreymir líka um að verða stjóri Manchester United," sagði Ole Gunnar Solskjær hreinskilinn.

Solskjær segist eiga Sir Alex Ferguson mikið að þakka fyrir að gefa honum tækifæri til að verða hluti af þjálfarateymi Manchester United. Hann er harður á því að vera hjá United á meðan Sir Alex situr í stjórastólnum.

„Ég verð hér á meðan hann er hér. Starf mitt hjá United byggir á honum. Ef Ferguson hefði ekki verið hér þá hefði ég ekki verið hér heldur. Við eigum gott samband og ég nýt þess að vinna fyrir hann," sagði Solskjær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×