Enski boltinn

Fabregas ætti að ná Manchester United leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal.
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal. Mynd/AP
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, meiddist í tapleiknum á móti Braga í Meistaradeildinni á þriðjudaginn og það var óttast í fyrstu að hann yrði frá í þrjár vikur og myndi jafnvel missa af leiknum við Manchester United sem fer fram 13. desember næstkomandi.

Arsene Wenger spáði hinsvegar fyrir því í morgun að fyrirliðinn hans yrði frá í tvær vikur og yrði því líklega með á móti United. „Fabregas fer í myndatöku í dag og eftir það ættum við að geta sagt ykkur hversu lengi hann verður frá. Ég giska á tvær vikur," sagði Arsene Wenger við Arsenal TV Online.

Fabregas meiddist enn á ný aftan í læri en hann hefur verið að glíma við þessi þráðlátu meiðsli allt þetta tímabil. Hann var frá í mánuð fyrr á tímabilinu en þá tognaði hann aftan í vinstra læri. Nú var tognunin hinsvegar hægra megin og Wenger talaði um að þetta gæti verið komið inn á sálina hjá Spánverjanum.

„Þetta er mikið áfall fyrir okkur enda vekur þetta upp spurningar um hvort við höfum verið að taka of mikla áhættu með hann og hversu varlega við verðum að fara í framtíðinni. Cesc hefur leikið 50 leiki á ári síðan að hann var mjög ungur og því þurfum við að fara mjög varlega með hann, sérstaklega næstu tvo mánuði," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×