Enski boltinn

Rooney feginn að hafa loksins skorað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney fagnar markinu í gær.
Wayne Rooney fagnar markinu í gær. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney segir að hann sé því feginn að hafa loksins komist aftur á blað hjá Manchester United en hann skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri á Rangers í Meistaradeild Evrópu í gær.

Markið skoraði hann úr vítaspyrnu undir lok leiksins. Þetta var hans fyrsta mark síðan að samningamál hans voru í sviðsljósinu í síðasta mánuði og fagnaði hann því vel og innilega.

„Þetta var augljóslega mikill léttir fyrir mig að hafa skorað þetta mark," sagði Rooney eftir leikinn.

„Ég var í raun ekki taugaóstyrkur. Ég vissi hvað ég var að gera og hvert ég ætlaði að skjóta. Það er í raun ekki meira sem ég get gert. Ef markvörðurinn giskar á rétt horn og nær að verja þá verður bara að hafa það. En sem betur fer fór boltinn inn."

Þetta var fyrsti leikur í byrjunarliði United síðan hann meiddist á ökkla og eflaust einhverjir stuðningsmenn liðsins sem eru enn ekki búnir að taka kappann í sátt.

„Ég vildi fagna þessu marki með stuðningsmönnunum. Það er alltaf gaman að vinna Rangers á útivelli."

„Vonandi kemst ég á skrið með þessu marki en fyrst og fremst er ég ánægður með að ég sé byrjaður að spila á nýjan leik."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×