Enski boltinn

Arnór: Eiður íhugar alvarlega að fara til Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Daníel

Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, segir í samtali við enska fjölmiðla í dag að Eiður sé alvarlega að íhuga að snúa aftur til Englands.

„Ég er ekki viss um hvað hann mun gera," sagði Arnór í samtali við Daily Mirror í dag. „Hann mun taka sér næstu tvær vikurnar í að taka ákvörðun. Það gæti vel verið að hann verði áfram. Hann er mjög opinn og enginn veit enn hvað verður," bætti hann við.

Eiður Smári er sem kunnugt er á mála hjá franska liðinu AS Monaco en hann fór þangað frá Barcelona í haust. Hann hefur hins vegar ekki enn náð að skora í deildarleik með liðinu og var ekki með í leikmannahópi liðsins síðustu þrjá leiki síðasta árs.

Mörg ensk félög hafa verið sögð hafa áhuga á að fá Eið í sínar raðir. Þó er talið að Blackburn sé komið langt með viðræður við Monaco og að félagið sé reiðubúið að greiða tvær milljónir punda fyrir hann.

„Það er augljóst að hann er að hugsa alvarlega um að snúa aftur til Englands. Hann hefur þó enga ákvörðun tekið enn. Þetta er í hans höndum," sagði Arnór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×