Fótbolti

Chung mun ekki bjóða sig fram til forseta FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA talar við Chung Mong-Joon.
Sepp Blatter, forseti FIFA talar við Chung Mong-Joon. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, er áfram bara einn í framboði í forsetakosningum FIFA á næsta ári. Suður-Kóerumaðurinn og varaforseti FIFA, Chung Mong-joon, var að íhuga framboð en hefur nú tilkynnt það að hann muni ekki bjóða sig fram eftir allt saman.

„Ég ætla að einbeita mér að því að fá HM til Suður-Kóreu árið 2022. Ég er ekki að hugsa um að bjóða mig fram til forseta árið 2011," sagði Chung Mong-joon í viðtali í suður-kóreskum fjölmiðlum.

Aðeins viku áður hafði hann látið hafa eftirfarandi eftir sér: „Til þess að stór stofnum eins og FIFA sé heilbrigð þá þarf að vera heilbrigð samkeppni," sagði Chung Mong-joon.

Hinn 74 ára gamli Sepp Blatter hefur nú verið forseti í tólf ár en hann er nú að sækjast eftir sínu fjórða kjörtímabili. Blatter fékk ekkert mótframboð þegar síðast var kosið til forseta árið 2007.

Suður-Kórea er í samkeppni við Ástralíu, Japan, Katar og Bandaríkin um að fá að halda HM 2022.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×