Fótbolti

Kannast ekki við landsleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Knattspyrnuyfirvöld í Tógó kannast ekki við að hafa sent landslið til að etja kappi við Bahrain í æfingaleik sem fór fram fyrr í þessum mánuði.

Bahrein vann leikinn, 3-0, en það þótti undravert hversu slakir „landsliðsmenn" Tógó voru í leiknum.

Síðar kom í ljós að knattspyrnusamband Tógó kannast ekkert við leikinn, hvað þá að hafa sent landsliðið til að taka þátt í honum. Íþróttamálaráðherra landsins sagðist ætla að biðja Aljþóða knattspyrnusambandið, FIFA, um að rannsaka málið.

Talsmaður knattspyrnusambands Bahrein sagðist hafa skipulagt leikinn í gegnum umboðsmann sem sambandið hefur starfað með til fjölda ára og að ekkert óeðlilegt hefði komið upp í aðdraganda leiksins.

Téður umboðsmaður er sagður sýna fullan samstarfsvilja til að komast til botns í málinu.

„Þeir voru ekki í standi til að spila í 90 mínútur," sagði Josef Hickersberger, landsliðsþjálfari Bahrain. „Leikurinn var mjög leiðinlegur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×