Enski boltinn

Bendtner segir ekkert til í sögusögnunum um að ferillinn sé búinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner spilar ekki mikinn fótbolta þessa dagana.
Nicklas Bendtner spilar ekki mikinn fótbolta þessa dagana. Mynd/AFP
Nicklas Bendtner framherji Arsenal og danska landsliðsins, segir ekkert til í þeim orðrómi sem hefur verið að ganga um að hann verði að leggja skónna á hilluna vegna langvinna meiðsla.

Nicklas Bendtner hefur ekki enn spilað leik með Arsenal á þessu tímabili en hann glímir við erfið nárameiðsli sem hafa verið að hrjá hann í nokkurn tíma. Upphaf meiðslavandræða Danans má rekja til þess þegar hann klessukeyrði Aston Martin bílinn sinn fyrir rétt tæpu ári síðan.

Bendtner var hissa að heyra þessar sögusagnir en hann er vongóður um að snúa til baka sem fyrst þótt að hann sé ekki tilbúinn að tilkynna hvenær það verður nákvæmlega.

„Það er fáránlegt að heyra svona sögur og ég hafna þeim algjörlega. Ég hef vissulega haft áhyggjur af þessum meiðslum en það hefur aldrei komið upp í huga minn að ég þyrfti að leggja skóna á hilluna," sagði Nicklas Bendtner.

„Ég get ekki ímyndað mér hvaðan þessi orðrómur kemur en hann er illgjarn og sjokkerandi. Ég horfi bjartsýnn til framtíðarinnar. Ég fer eftir minni tímaáætlun en hún verður mitt leyndarmál," sagði Bendtner.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×