Enski boltinn

Vidic enn frá vegna meiðsla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nemanja Vidic í leik með Manchester United.
Nemanja Vidic í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Nemanja Vidic verður frá næstu tíu dagana að sögn forráðamanna Manchester United. Hann meiddist í upphitun fyrir leik United gegn Leeds um síðustu helgi.

Vidic er með klemmda taug í löppinni en Alex Ferguson sagði að hann hefði verið sendur til sérfræðings á miðvikudaginn.

„Það er hægt að leysa þetta vandamál með ákveðnum æfingum," sagði Ferguson við enska fjölmiðla. „Hann fann fyrir óþægindum í hægri löppinni og treysti sér ekki til að spila leikinn. Ég skil það vel enda var þetta sársaukafullt fyrir hann. Hann ætti að vera búinn að jafna sig eftir um tíu daga."

Skömmu fyrir leikinn gegn Leeds var Ferguson spurður út í fjarveru Vidic en þá sagðist hann ekki hafa hugmynd um af hverju hann gæti ekki spilað. Í kjölfarið fóru á flug sögusagnir um að þeir hafi rifist fyrir leikinn.

Vidic hefur hins vegar neitað þessu og segir að samband hans við Ferguson sé mjög gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×