Enski boltinn

Eiður. Þetta var stórt skref fyrir mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði með varaliði Stoke sem vann 4-1 sigur á Walsall í gær. Eiður Smári spilaði allan leikinn og fagnaði því í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Að komast í gegnum allar 90 mínúturnar var stórt skref fyrir mig," sagði Eiður Smári. „Mér leið mun betur en þegar ég spilaði í 45 mínútur fyrir varaliðið í síðasta leik og ég hef trú á því að þetta sé allt á réttri leið."

Eiður Smári samdi við Stoke í lok síðasta mánaðar eftir að hafa verið á mála hjá AS Monaco í eitt ár. Hann æfði þó ekkert með síðarnefnda liðinu í sumar.

„Mín staða hefur ekki verið ákjósanleg. Ég hefði kosið að taka þátt í heilu undirbúningstímabili með hinum strákunum, þar með hefði ég verið tilbúinn strax frá fyrsta degi."

„En ég vissi að ég þyrfti að ná öðrum leikmönnum hvað þetta varðar. Þetta hefur ekki verið sérstaklega skemmtilegt en þetta var eitthvað sem þurfti að gera."

Eiður Smári kom ekkert við sögu í leik Stoke og Fulham í deildabikarnum á þriðjudagskvöldið. Hann var ónotaður varamaður í leiknum þó svo að hann hafi um tíma hitað upp, stuðningsmönnum Stoke til mikillar gleði.

„Þegar ég verð tilbúinn mun ég hafa stóru hlutverki að gegna í tímabili Stoke og mun veita stuðningsmönnunum ástæðu til að öskra."

„Stjórinn ákvað að nota mig ekki í deildabikarnum svo ég gæti spilað heilan leik með varaliðinu. Þegar heildarmyndin er skoðuð þá var þetta rétt ákvörðun hjá honum. Mér leið mun betur eftir að hafa spilað í 90 mínútur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×