Enski boltinn

Chelsea tók toppsætið af United með 2-1 sigri á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole skoraði eina mark fyrri hálfleiks.
Joe Cole skoraði eina mark fyrri hálfleiks. Mynd/AP
Chelsea vann 2-1 útisigur á Manchester United í uppgjöri toppliða ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester. Chelsea-maðurinn Joe Cole skoraði eina mark fyrri hálfleiks og varamennirnir Didier Drogba (Chelsea) og Federico Macheda (United) skoruðu síðan sitthvort ólöglega markið í seinni hálfleiknum. Manchester pressaði mikið í lokin en Chelsea-vörnin hélt út og fór heim með öll stigin þrjú.

Chelsea-liðið mætti miklu grimmara til leiks og var mun betra í fyrri hálfleikinn með Florent Malouda í fararbroddi. Það var allt annað að sjá Manchester United liðsins í seinni hálfleiknum en góð skipting hjá Carlo Ancelotti, stjóra Chelsea, skóp annað markið fyrir Chelsea og eftir það varð þetta of erfitt fyrir heimamenn.

Chelsea komst í 1-0 á 20. mínútu leiksins. Florent Malouda fór framhjá að minnsta kosti þremur varnarmönnum Manchester United áður en hann lagði boltann út í markteiginn þar sem Joe Cole tók hann með hælnum og setti hann í fjærhornið.

Didier Drogba kom inn á sem varamaður á 69. mínútu og kom Chelsea í 2-0 tíu mínútum síðar eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina frá landa sínum og öðrum varamanni, Salomon Kalou. Drogba var þó greinilega rangstæður þegar hann fékk boltann og markið átti því ekki að standa.

Varamennirnir hjá Manchester United voru ekki lengi að minnka muninn þegar Federico Macheda skoraði eftir undirbúning frá Nani aðeins tveimur mínútum eftir mark Drogba. Boltinn fór af Peter Cech og líklega í hönd Macheda og þaðan lak hann inn fyrir marklínuna.

Chelsea er þar með 74 stig eða tveimur stigum meira en Manchester United  þegar fimm leikir eru eftir af tímabilinu. Þetta var aðeins annað tap Manchester United á Old Trafford á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×