Enski boltinn

West Ham jafnaði tvisvar á móti Everton og tryggði sér langþráð stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Da Costa fagnar marki sínu í dag.
Manuel Da Costa fagnar marki sínu í dag. Mynd/Getty Images
West Ham náði í sitt fyrsta stig í ensku úrvalsdeildinni síðan 20. febrúar og endaði um leið sex leikja taphrinu með því að ná 2-2 jafntefli á móti Everton á Goodison Park í dag.

Varamaðurinn Araujo Ilan tryggði West Ham jafntefli fjórum mínútum fyrir leikslok og aðeins tveimur mínútum eftir að Everton hafði komist yfir í annað skiptið í leiknum.

Everton var búið að vinna sjö heimaleiki í röð fyrir leikinn í dag en liðið er áfram í áttunda sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir Aston Villa. West Ham er með stigi meira en Hull sem situr í síðasta fallsætinu en Hull á leik inni.

Diniyar Bilyaletdinov kom Everton í 1-0 á 24.mínútu eftir sendingu frá Tim Cahill en þetta var fyrsta alvöru færi liðsins í leiknum.

Mido fékk möguleika á að jafna leikinn tólf mínútum síðar en hann lét þá Tim Howard, markvörð Everton, verja frá sér vítaspyrnu.

West Ham jafnaði leikinn á 60. mínútu þegar Manuel Da Costa kom boltanum yfir marklínuna eftir þvögu inn í vítateig Everton í kjölfar hornspyrnu Mark Noble.

Aiyegbeni Yakubu kom Everton aftur yfir á 84.mínútu með skalla eftir sendingu frá Leighton Baines en það tók varamanninn Araujo Ilan aðeins tvær mínútur að jafna þegar hann skallaði boltann í markið eftir stoðsendingu frá Julien Faubert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×