Enski boltinn

Benitez enn að skamma fyrrum eigendur Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Rafa Benitez, þjálfari Inter, er ekki hættur að tala illa um fyrrverandi eigendur Liverpool, þá Tom Hicks og George Gillett.

Þeir kenndu Benitez um slælegt gengi Liverpool síðustu ár og að byrjunina á þessu tímabili mætti einnig rekja til Benitez sem hefði skilið liðið eftir í slæmu standi.

"Það er oft sagt á Spáni að hvítur vökvi í flösku hljóti að vera mjólk. Hvað þýðir það? Það þýðir að eftir 86 stig og annað sæti í deildinni gerðist eitthvað," sagði Benitez reiður.

"Bandaríkjamennirnir völdu nýjan framkvæmdastjóri og allt breyttist. Hann tók þátt í öllum ákvörðunum eftir að hann kom til félagsins. Hann breytti öllu," sagði Benitez og talaði þar um Christian Purslow.

"Þeir breyttu öllu því góða sem við vorum að vinna að. Þannig að hvítur vökvi í flösku: mjólk. Þið vitið hverjum er um að kenna," sagði Benitez en ekki skildu allir hvað hann nákvæmlega meinti með þessari samlíkingu. Hann var því beðinn um að útskýra nánar.

"Hvítur vökvi í flösku. Ef ég sé Jón mjólkurmann á mínu hverfi með þessa flösku þá álít ég að hann sé með mjólk í henni. Ég get ekki sagt annað en að ég vorkenni stuðningsmönnum félagsins."

Þar hafiði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×