Fótbolti

Dómarinn í leik Englands fékk lista yfir blótsyrði á ensku

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Gerrard á leiðinni á blaðamannafund.
Gerrard á leiðinni á blaðamannafund. GettyImages
Dómarinn sem dæmir leik Englands og Bandaríkjanna á laugardaginn hefur fengið lista yfir 20 ensk blótsyrði. Þau fékk hann ef enska liðið missir sig í leiknum og blótar svo góðu hófi gegnir.

Enska liðinu hefur einmitt verið skipað að halda sig á mottunni innan vallar. Wayne Rooney er helst nefndur í þeim efnum, hann fékk til að mynda glórulaust gult spjald í æfingaleiknum gegn Platinium Stars á mánudag þegar hann missti stjórn á skapi sínu.

Enska liðið hefur oft átt í vandræðum með aga. Árið 1986 fékk Ray Wilkins rautt spjald fyrir að henda boltanum að dómaranum, David Beckham fékk rautt þegar hann pirraðist gegn Argentínu í undanúrslitunum árið 1998 og Rooney traðkaði á Ricardo Carvalho árið 2006 og sá rautt.

Maður blótar ekkert við dómarann, er það nokkuð?" spurði Steven Gerrard á blaðamannafundi í dag. "Nú á dögum finnst mér mikilvægt að sýna dómurum virðingu. Þú mátt ekki missa þig og fá gult spjald að ástæðulausu," sagði Gerrard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×