Enski boltinn

Blatter ætlar ekki að fresta kosningunni um HM 2018 og 2022

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter.
Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að ekki komi til greina að fresta kosningu framkvæmdastjórnar sambandsins um hvar HM í knattspyrnu muni fara fram 2018 og 2022.

Mikið hefur verið rætt um kosninguna eftir að upp komst um að tveir meðlimir framkvæmdastjórnarinnar voru reiðubúnir að selja atkvæði sín.

Það var breska dagblaðið The Sunday Times sem uppljóstraði þessu eftir að blaðamaður á þeirra vegum þóttist vera fulltrúi frá Bandaríkjunum og bauð þeim 800 þúsund pund í skiptum fyrir atkvæði þeirra.

Bandaríkin og England voru á meðal þeirra þjóða sem lögðu fram boð í keppnirnar tvær. Bandaríkin dró svo tilboð sitt í keppnina sem haldin verður 2018 til baka og í kjölfarið drógu Englendingar boð sitt í 2022-keppnina til baka.

Kosningin fer fram þann 2. desember næstkomandi og verður því ekki breytt. Fulltrúunum tveimur, Amod Adamu frá Nígeríu og Reynald Temarii frá Tahiti, hafa verið vikið úr framkvæmdastjórninni.

„Það eru fimm vikur í kosninguna og það kom aldrei til greina að breyta neinu," sagði Blatter á blaðamannafundi í dag. „Þetta er óþægileg staða fyrir FIFA en það verður að koma fram að innan sambandsins eru til úrræði sem gerir okkur kleift að bregðast skjótt við svona málum."

„Siðanefndin er að takast á við þær ásakanir sem hafa komið fram um mögulega spillingu. Ef þeim sem hefur verið vikið frá fá ekki sæti sín aftur fyrir 2. desember koma ekki aðrir í þeirra stað."

Þetta er þó ekki eina vandamálið sem hefur komið upp í aðdraganda kosninganna. Ásakanir hefa komið fram um ólöglegt samráð fulltrúa Spánar og Portúgal (sem bjóða í HM 2018) annars vegar og Katar (sem bjóða í HM 2022) hins vegar.

Þá hafa skotin gengið á milli fulltrúa Rússa og Breta undanfarna daga eftir að formaður boðsnefndar Rússa sagði glæpatíðni háa í Lundúnum og að þar væri unglingadrykkja mikið vandamál. Hann sagði svo stuttu síðar að boð Englands væri ekki merkilegt og í raun hálfgert grín. Íþróttamálaráðherra Rússlands baðst svo afsökunar á ummælunum til að lægja öldurnar.

Þessir vilja halda HM 2018:

England

Rússland

Spánn/Portúgal

Holland/Belgía



Þessir vilja halda HM 2022:


Ástralía

Katar

Japan/Suður-Kórea

Bandaríkin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×