Enski boltinn

Eigandi Boston Red Sox vill kaupa Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fullyrt er í enskum fjölmiðlum í kvöld að tvö ný tilboð hafi borist í enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool, þar af eitt frá eigendum hafnarboltaliðsins Boston Red Sox.

Þeir Tom Hicks og George Gillett eru eigendur Liverpool og eru sagðir vilja fá 600 milljónir punda fyrir félagið.

Illa hefur gengið að finna kaupendur enda hafa eigendurnir verið gagnrýndir fyrir of hátt söluverð.

Liverpool er afar skuldsett og þurfa þeir Hicks og Gillett að finna félaginu nýja eigendur áður en skuld upp á 282 milljónir punda fellur á félagið þann 15. október næstkomandi.

Stjórn Liverpool fundaði í dag og mun hafa mælt með því að eigendur taki öðru tilboðanna. Það muni lækka skuldastöðu félagsins verulega og færa eigendunum það sem þeir lögðu upphaflega í félagið.

John Henry, eigandi Boston Red Sox, er sagður annar þeirra sem hafi lagt fram tilboð en hitt mun koma frá asískum aðila.

Samkvæmt frétt BBC í kvöld munu eigendurnir, Gillett og Hicks, ekki hrifnir af því að taka öðru þessara tilboða þar sem þeir muni ekki hagnast á sölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×