Enski boltinn

Newcastle vann 4-3 sigur á Chelsea á Stamford Bridge

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Taylor fagnar marki sínu á móti Chelsea.
Ryan Taylor fagnar marki sínu á móti Chelsea. Mynd/GettyImages
Newcastle vann 4-3 sigur á Chelsea á Stamford Bridge í 3. umferð enska deildarbikarsins í kvöld en þetta var fyrsta tap Chelsea á tímabilinu. Shola Ameobi skoraði sigurmarkið á 90. mínútu leiksins.

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, gerði tíu breytingar á byrjunarliði sínu frá því um síðustu helgi en sömu sögu var að segja af Chris Hughton, stjóra Newcastle.

Það tók Chelsea aðeins sex mínútur að komast í 1-0. Sol Campbell missti boltann í sínum fyrsta leik með Newcastle, Gaël Kakuta nýtti sér það og spilaði vinstri bakvörðinn Patrick van Aanholt frían sem kom Chelsea yfir.

Newcastle gafst ekki upp og Nile Ranger nýtti sér góða fyrirgjöf frá Shane Ferguson þegar hann renndi sér á boltann á fjærstöng og jafnaði leikinn.

Það var ekki búið því sex mínútum síðar fékk Newcastle aukaspyrnu fyrir utan teig og Ryan Taylor tók sig til og kom liðinu í 2-1 með glæsilegri spyrnu.

Carlo Ancelotti tók John Terry útaf í hálfleik og setti þá Alex og Salomon Kalou inn á völlinn.

Það dugði þó lítið því Shola Ameobi kom Newcastle í 3-1. Paulo Ferreira tapaði þá boltanum til Ameobi sem lét vaða af 25 metra færi og skoraði framhjá Ross Turnbull sem átti að gera betur í markinu.

Þetta var líka stutt gaman hjá Salomon Kalou sem var borinn af velli á 57. mínútu eftir að hafa tognað illa. Skömmu síðar tognaði Yossi Benayoun líka og varð að hætta sem þýddi að Chelsea var aðeins með tíu menn inn á vellinum það sem eftir lifði leiksins.

Nicolas Anelka náði engu að síður að minnka muninn eftir sendingu frá Patrick van Aanholt á 70. mínútu. Alex fiskaði síðan umdeilda vítaspyrnu á 86. mínútu og Anelka jafnaði leikinn með því að skora örugglega úr vítinu.

Það virtist stefna í framlengingu en dramatíkin var ekki búin. Shola Ameobi tryggði Newcastle síðan sigurinn með skallamarki eftir hornspyrnu á síðustu mínútu leiksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×