Enski boltinn

Manchester City fór illa með lærisveina Mark Hughes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tévez fagnar öðru marka sinna í dag.
Carlos Tévez fagnar öðru marka sinna í dag. Mynd/AP

Manchester City endurheimti fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni með 4-1 útisigri á Fulham í dag en þarna mætti Roberto Mancini, stjóri Manchester City, Mark Hughes, stjóra Fulham, sem var rekinn frá City fyrir tæpu ári síðan.

Manchester City komst yfir eftir sex mínútna leik og var komið í 3-0 eftir 35 mínútur þannig að það var snemma ljóst í hvað stefndi. Argentínumaðurinn Carlos Tévez skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja en í stúkunni var landi hans og fyrrum landsliðsþjálfari, Diego Maradona.

Carlos Tévez skoraði fyrsta mark City eftir aðeins sex mínútur þegar hann fékk sendingu frá Gareth Barry og skoraði laglega. City-menn gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum með þriggja mínútna kafla. Fyrst skoraði Pablo Zabaleta með laglegu langskoti á 32. mínútu og svo skoraði Yaya Touré eftir sendingu frá Carlos Tévez á 35. mínútu.

Fulham byrjaði seinni hálfleikinn vel en veik von liðsins um að fá eitthvað út úr leiknum þegar Carlos Tévez kom City í 4-0 á 56. mínútu. Tevez hafði heppnina með sér þegar Zabaleta skaut í hann og boltinn fór upp í lofti og yfir Mark Schwarzer markvörð Fulham.

Zoltan Gera minnkaði muninn á 70. mínútu en nær komst Fulham ekki og City vann langþráðan sigur eftir tvö markalaus jafntefli í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×