Íslenski boltinn

Umfjöllun: Þá féll það með KR - Lars Ivar með stórleik

Elvar Geir Magnússon skrifar

Baldur Sigurðsson sendi Eyjamenn tómhenta heim úr Frostaskjólinu í kvöld en hann skoraði eina markið í viðureign KR og ÍBV. Það skoraði hann með skalla eftir sendingu Óskars Arnar Haukssonar á 89. mínútu leiksins.

Ansi svekkjandi niðurstaða fyrir gestina sem voru síst lakari aðilinni í leiknum. Lítið hefur fallið með KR-ingum í sumar en að þessu sinni féll það og þeir hafa nú unnið sinn fyrsta heimasigur í deildinni.

Bæði lið áttu skot í tréverkið í fyrri hálfleik. Jordao Diogo skaut í stöngina snemma leiks og Andri Ólafsson setti svo knöttinn í þverslána rétt fyrir leikhlé.

Annars var dómarinn Þorvaldur Árnason í aðalhlutverki í fyrri hálfleiknum en óhætt er að segja að hann hafi ekki átt góðan dag. Hann spjaldaði Grétar Sigfinn Sigurðarson réttilega snemma leiks en sleppti síðan að áminna hann aftur í hálfleiknum fyrir brot sem augljóslega verðskuldaði spjald.

KR-ingar voru þar stálheppnir að haldast ellefu inni á vellinum. Gestirnir mótmæltu en eina sem þeir uppskáru var gult spjald á Tryggva Guðmundsson sem dómaranum þótti sýna látbragð til stúkunnar.

Undir blálok hálfleiksins fékk ÍBV svo umdeilda vítaspyrnu þegar markvörðurinn Lars Ivar Moldsked var dæmdur brotlegur eftir að Denis Sytnik féll í teignum. Þorvaldur dómari var samt greinilega ekki alveg viss í sinni sök því hann sleppti því að draga upp spjald.

Tryggvi Guðmundsson steig á punktinn en Lars Ivar gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu hans. Staðan var því markalaus í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var ekki eins fjörugur og sá fyrri en Eyjamenn voru þó hættulegri í sínum aðgerðum og varði Lars Ivar glæsilega frá Sytnik sem slapp einn í gegn.

Á lokakaflanum settu KR-ingar meiri þunga í sóknarleikinn og fóru að skapa sér betri færi. Það varð til þess að Baldur Sigurðsson náði að tryggja þeim ansi dýrmætan sigur.

KR lék afbrigði af leikkerfinu 4-3-3 að þessu sinni en Bjarni Guðjónsson tók út leikbann. Liðið var lengst af ansi bitlítið fram á við. Varnarlega var það þó sterkt. Grétar Sigfinnur er nánast að spila á annarri löppinni en stendur fyrir sínu, bakverðirnir voru flottir og Mark Rutgers átti sinn besta leik í sumar.

Maður leiksins er þó án vafa Lars Ivar sem sýndi að hann er alls ekki vonlaus. Hann hefur litið út eins og trúður í byrjun móts en átti stórleik í markinu í kvöld.

Eyjamenn voru að leika vel og þeirra leikaðferð gekk að mestu upp. Lið þeirra er mjög þétt og engin tilviljun að það er í toppbaráttunni. Þeir fóru þó illa með sín færi og var refsað.

KR - ÍBV 1-0

1-0 Baldur Sigurðsson (89.)

Áhorfendur: 1.003

Dómari: Þorvaldur Árnason 3

Skot (á mark): 14-12 (7-7)

Varin skot: Lars 6 - Albert 5

Horn: 4-4

Aukaspyrnur fengnar: 15-13

Rangstöður: 4-0

KR 4-3-3

Lars Ivar Moldsked 8* - Maður leiksins

Skúli Jón Friðgeirsson 7

Grétar Sigfinnur Sigurðarson 7

Mark Rutgers 7

Guðmundur Reynir Gunnarsson 7

(77. Gunnar Kristjánsson -)

Baldur Sigurðsson 7

Viktor Bjarki Arnarsson 5

Óskar Örn Hauksson 6

Gunnar Örn Jónsson 5

(74. Kjartan Henry Finnbogason -)

Jordao Diogo 5

Björgólfur Takefusa 6

ÍBV 4-3-3

Albert Sævarsson 7

James Hurst 7

Eiður Aron Sigurbjörnsson 7

Rasmus Christiansen 6

Matt Garner 6

Andri Ólafsson 7

Finnur Ólafsson 6

(90. Gauti Þorvarðarson -)

Tryggvi Guðmundsson 7

Þórarinn Ingi Valdimarsson 6

(71. Yngvi Borgþórsson -)

Tonny Mawejje 6

Eyþór Helgi Birgisson 5

(26. Denis Sytnik 6)


Tengdar fréttir

Grétar Sigfinnur: Óþolandi þegar menn láta sig detta

„Við vorum hættulegri í sköllunum og ljúft að ná þessu í lokin," sagði Grétar Sigfinnur Sigurðarson, leikmaður KR, eftir 1-0 sigur liðsins á ÍBV í kvöld. Sigurmarkið skoraði Baldur Sigurðsson á 89. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×