Íslenski boltinn

Heimir Hallgríms: Það sáu það allir nema dómarinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heimir Hallgrímsson var ekki sáttur við ákvörðun dómarans í fyrri hálfleiknum.
Heimir Hallgrímsson var ekki sáttur við ákvörðun dómarans í fyrri hálfleiknum.

Eyjamenn fara svekktir heim með tóma vasa eftir að hafa tapað 1-0 á KR-vellinum í kvöld. Lið ÍBV lék leikinn mjög vel en fékk blauta tusku í andlitið skömmu fyrir leikslok.

„Þetta er sárt. Ég tel að leikurinn hafi spilast vel fyrir okkur og við vorum með tökin þar til á lokakaflanum. Við vorum að bíða eftir tækifæri til að klára leikinn því við vissum að þeir myndu fórna mönnum í sóknina til að ná í þrjú stig. Við ætluðum að nota svæðið sem átti að myndast en náðum ekki að nýta það. Þetta bara datt því miður ekki fyrir okkur," sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn.

Heimir var alls ekki sáttur við að Grétar Sigfinnur Sigurðarson, leikmaður KR, hafi ekki fengið rautt spjald í fyrri hálfleiknum. Grétar fékk snemma gult spjald en slapp við að fá aðra áminningu fyrir verra brot síðar í hálfleiknum. Þorvaldur Árnason dómari átti ekki góðan dag.

„Allir sem kunna og hafa eitthvað vit á fótbolta gátu séð það að þetta var rangur dómur. Grétar Sigfinnur átti að fá sitt annað gula spjald. Hann var kominn með gult spjald fyrir minni sakir en seinna skiptið. Það sáu það bara allir en því miður ekki dómarinn. Svona er þetta bara"

Heimir segir sína menn þó alls ekki leggja árar í bát enda liðið enn í góðri stöðu. „Við grenjum þetta ekki. Í upphafi tímabils hefði ekki verið talið slæmt að koma hingað og halda jöfnu við KR en miðað við að þeir voru í þriðja neðsta sæti ætluðum við að koma hingað og ná í þrjú stig," sagði Heimir Hallgrímsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×