Íslenski boltinn

Grétar Sigfinnur: Óþolandi þegar menn láta sig detta

Elvar Geir Magnússon skrifar
Grétar Sigfinnur Sigurðarson.
Grétar Sigfinnur Sigurðarson.

„Við vorum hættulegri í sköllunum og ljúft að ná þessu í lokin," sagði Grétar Sigfinnur Sigurðarson, leikmaður KR, eftir 1-0 sigur liðsins á ÍBV í kvöld. Sigurmarkið skoraði Baldur Sigurðsson á 89. mínútu.

„Menn voru farnir að hugsa mikið út í það að þetta væri ekki að falla með okkur. Þannig hugsunarhátt fá oft lið í neðri hlutanum en núna féll þetta með okkur," sagði Grétar.

Vesturbæjarliðið lék afbrigði af 4-3-3 leikkerfinu eftir að hafa spilað 4-4-2 nánast allt mótið. „Við höfum verið að tapa miðjunni en núna voru komnir þrír þangað. Að þessu sinni náðum við að vinna seinni boltann mun oftar. Við vorum tilbúnir að berjast allan tímann og þetta vannst á því."

Markvörðurinn Lars Ivar Moldsked átti sinn besta leik í KR-búningnum. Hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en kom í veg fyrir að ÍBV tæki forystu með því að verja spyrnuna.

„Þetta var einfaldlega ekki víti og myndavélaranr munu sanna það. Það er gjörsamlega óþolandi þegar menn láta sig detta," sagði Grétar. „Það var frábært hjá honum að verja þetta víti og hann er flottur milli stanganna. Við höfum allir gert mistök í sumar en mistök markvarða verða oft dýrkeyptari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×