Fótbolti

Mourinho vildi koma á Laugardalsvöllinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho segist enn finna fyrir biturleika vegna ákvörðunar forráðamanna Real Madrid að hafa ekki fengið að stýra portúgalska landsliðinu tímabundið.

Forráðamenn portúgalska knattspyrnusambandsins leituðu til Mourinho eftir Carlos Queiroz var sagt upp störfum í síðasta mánuði.

Þeir vildu að Mourinho myndi stýra landsliðinu gegn Danmörku og Íslandi nú í október. Portúgal er í slæmri stöðu í undankeppninni en liðið hlaut eitt stig í fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum.

„Í tvo daga leið mér og hugsaði ég eins og landsliðsþjálfari Portúgal," skrifaði Mourinho í grein sem birtist á heimasíðu samtaka knattspyrnuþjálfara.

„En ég verð að viðurkenna að Real Madrid er risavaxin stofnun sem „keypti" mig frá Inter. Félagið borgar mér laun og getur ekki leyft sér að taka neinar áhættur enda hefur það skyldur gagnvart hluthöfum og stuðningsmönnum."

„Eftir á að hyggja er þetta skynsamleg ákvörðun. En ég finn enn fyrir biturleika yfir þeirri staðreynd að mér var ekki leyft að hjálpa til."

Portúgal mætir Dönum á föstudaginn og Íslandi eftir viku en Paulo Bento hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×