Enski boltinn

Tevez: Ég ræði margt við Roberto, bæði opinberlega og á bak við tjöldin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez og Roberto Mancini á hiðarlínunni þegar Tevez var tekinn útaf um helgina.
Carlos Tevez og Roberto Mancini á hiðarlínunni þegar Tevez var tekinn útaf um helgina. Mynd/AP
Carlos Tevez heldur því fram að allt sé í góðu á milli sín og Roberto Mancini, stjóra Manchester City, þótt að margt bendi til þess að samband þeirra sé ekki gott. Tevez var sem dæmi allt annað en ánægður þegar Mancini tók hann útaf í sigurleik á móti Bolton um helgina.

Tevez hafði áður en honum var skipt útaf skorað sigurmark Manchester City og hefur nú skorað 10 af 21 marki liðsins í ensku úrvalsdeildinni til þessa. Hann er því búinn að bjarga mörgum stigum yfir Mancini.

„Auðvitað kemur mér og Roberto vel saman og ég styð hann hundrað prósent," sagði Carlos Tevez í viðtali við Manchester City tímaritið sem var tekið fyrir leikinn um helgina.

Carlos Tevez var ekki sáttur með að vera tekinn útaf á móti Bolton.Mynd/AP
„Ég var vonsvikinn með að stuðningmenn okkar skyldu láta stjórann fá það óþvegið fyrir að skipta mér útaf á móti Birminhgam á dögunum. Fólk vissi ekki að ég var búinn að spila sárþjáður þrjá leiki á undan en það vissi stjórinn. Hann skipti mér því útaf til þess að hlífa mér," sagði Carlos Tevez í þessu viðtali sem lítur broslega út eftir atburði helgarinnar.

„Það er ósanngjarnt að gagnrýna stjórann fyrir hans ákvarðanir. Við verðum öll að vera þolinmóð því það er mikið eftir af tímabilinu," sagði Tevez.

„Ég og Roberto náum vel saman. Við ræðum fullt af hlutum bæði opinberlega og bak við tjöldin. Við erum báðir ástríðufullir fótboltamenn og við viljum báðir að Manchester City gangi vel. Við viljum báðir vinna," sagði Tevez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×