Enski boltinn

Rooney ekki með á móti Svartfjallalandi - frá í tvær vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/AP

Ökklameiðsli Wayne Rooney virðast vera mun alvarlegri en í fyrstu var talið en enski landsliðsframherjinn verður væntanlega frá í tvær til þrjár vikur vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á móti Bolton í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í kvöld. „Hann verður frá í tvær til þrjár vikur en þetta fer allt eftir því hvernig endurhæfingin gengur. Hingað til hefur Wayne oft verið fljótur að ná sér eftir meiðsli," sagði Sir Alex Ferguson.

Wayne Rooney verður ekki með Manchester United á móti Valencia í Meistaradeildinni á morgun eins og þegar hafði komið fram en nú mun hann væntanlega missa af landsleik Englendinga við Svartfjallaland í næsta mánuði. Rooney verður í það minnsta ekki með United á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

Enska landsliðið verður því líklega án margra sterkra leikmanna í þessum leik við Svartfellinga í undankeppni EM því Jermain Defoe, Bobby Zamora, James Milner og Frank Lampard verða allir fjarri góðu gammni í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×