Fótbolti

Beckham komst ekki í úrslitaleikinn í bandarísku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham hughreystir félaga sinn í leikslok.
David Beckham hughreystir félaga sinn í leikslok. Mynd/AP
David Beckham og félagar í Los Angeles Galaxy eru úr leik í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar eftir 3-0 tap á móti FC Dallas í úrslitaleik Vesturdeildarinnar í nótt.

FC Dallas mætir liði Colorado Rapids í úrslitaleiknum sem fer fram í Toronto 21. nóvember næstkomandi. Kolumbíski miðjumaðurinn David Ferreira skoraði og lagði upp mark fyrir FC Dallas í leiknum en sigurinn var óvæntur. Ferreira skoraði úr eina skoti Dallas í fyrri hálfleik.

„Við hefðum átt að spila okkar fótbolta eins og við höfum verið að gera allt þetta tímabil. Það greip um sig örvænting þegar þeir komust yfir og við komum okkur ekki aftur inn í leikinn," sagði David Beckham sem lék meiddur en hann á við nárameiðsli að stríða.

„Við erum auðvitað mjög vonsviknir með þessi úrslit. Þeir áttu fimm skot og skoruðu þrjú mörk en við áttum miklu fleiri skot en tókst ekki að skora," sagði Landon Donovan, fyrirliði Los Angeles Galaxy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×